CopyRight_iStock_Swoosh-R_Alanine

Beta-alanín – ekki er allt gull sem glóir!

Hvað er beta-alanín?
Beta-alanín er amínósýra sem finnst m.a. í beinagrindarvöðvum en amínósýrur eru uppbyggingarefni próteina. Líkaminn getur búið til beta-alanín úr öðrum amínósýrum sem í líkamanum má finna.

Hverjir neyta og til hvers?
Mjög vinsælt er orðið að taka beta-alanín og má með sanni segja að efnið sé eitt það vinsælasta á markaðnum. Flestir sem neyta efnisins gera það til þess að geta tekið betur á í æfingum, hvort sem það eru lyftingaæfingar, sundæfingar eða hlaupasprettæfingar. Efninu er neytt í þeirri trú að það geti lengt þann tíma sem við getum æft undir hámarksafköstum, til dæmis eins og gerist í erfiðum lyftingum, erfiðum cross-fit æfingum, eða í spretthlaupum.

Virkar að neyta aukins magns af beta-alaníní?
Það eru ekki nægilega margar rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið þar sem beta-alaníne er rannsakað til að hægt sé að segja af eða á hvort efnið virki. Eins og staðan er núna þá er líklegt að efnið hjálpi til við að draga úr sýrumyndun í vöðvum sem starfa undir miklu álagi og lengja þar með tímann sem hægt er að vinna undir hámarks afköstum. En líklegt er að þetta eigi við hjá mjög vel þjálfuðum einstaklingum sem taka þátt í verulega erfiðum íþróttum eins og þríþraut og langhjólreiðum. Varðandi meðaljóninn þá er ólíklegt að neysla á beta-alaníni hafi nokkur áhrif og víst þykir að aðrir þættir í þjálfuninni sjálfri skili meiri árangri en neysla á beta-alaníni.

Er beta-alanín hættulaust til neyslu?
Já efnið virðist hættulaust fyrir heilbrigða fullorðna einstaklinga ef skammtastærðir eru undir 6 g á dag. Eins og með flestar amínósýrur sem neytt er í ofsamagni þá geta óþægindi í meltingarvegi gert vart við sig. Einnig er þekkt að neysla á beta-alaníni valdi kláða í húð hjá sumum einstaklingum. Slíkur kláði hættir oft eftir að efnisins hefur verið neytt í nokkur skipti.

Niðurstaða
Alger óþarfi er fyrir meðaljóninn að neyta beta-alaníns enda margt annað í þjálfuninni sjálfri sem getur stuðlað að bætingu árangurs. Fyrir þrautþjálfaðan íþróttamann getur neysla á beta-alaníni þó komið að notum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Follow

Get every new post delivered to your Inbox

Join other followers