Færðu nægan svefn?

Færðu nægan svefn?

Þú æfir vel, borðar vel, notar viðeigandi fæðubótarefni, ferð í nudd og fleira. En ert þú að gera það sem er mikilvægast fyrir hlaupara og alla þá sem stunda íþróttir. Færðu nægan svefn?

Fyrir 10 mánuðum síðan varð ég fyrir áhugaverðri lífsreynslu. Í vetrarhjólaferð á TREK Superfly 100 hjólinu mínu með stórum hópi af fólki, fékk ég hjartaáfall. Þetta var ekki dæmigert hjartaáfall þar sem æðarnar stífluðust og blóðstreymi varð minna þess vegna, heldur hjartaáfall þar sem hjartavöðvinn hafði orðið veikburða yfir ákveðinn tíma. Ég nefnilega sinnti ekki heilsunni almennilega og æfði grimmt á meðan undirliggjandi veikindi fengju að grassera óáreitt í kringum hjartað. Sýking og bólgur teygðu sig svo að lokum inn í hjartavöðvann sem með beinum eða óbeinum hætti varð líklega til þess að hjartað gafst upp í hjólaferðinni.

En þessi færsla var ekki til þess að fá einhverja meðaumkun frá þér því slíkt er alger óþarfi. Ég er nú þegar á réttri leið og með vinnu og jákvæðni að leiðarljósi verð ég kominn á fullt innan tíðar – þó núna með skynsemi á bak við eyrað! :)

Verandi næringarfræðingur þá hefur næring og heilsa ekki verið vandamál hjá mér og hef ég í gegnum tíðina tamið mér heilbrigðan lífsstíl. Ég hef einnig íþróttakennaragráðu og íþróttir hafa verið hluti af mínu lífi daglega í næstum 40 ár. En á sama tíma og ég kunni hófs hvað mataræði varðaði þá var ég ekki alltaf með á hreinu hvað það væri sem líkaminn vildi og þoldi þegar kom að líkamlegu erfiði. Ég þekkti ekki takmörk mín þegar kom að hreyfingu og lét hausinn „plata mig“ út í að gera allskonar hluti sem eftir á að hyggja hefði verið betra að sleppa. Hausinn á það nefnilega til að vera öflugri til framkvæmda en líkaminn sjálfur og slíkt er uppáskrift á vandræði. Ég er alveg viss um að þú veist hvað ég á við! :)

Í kjölfar reynslu minnar gerði ég mér grein fyrir því að ég þurfti að gera breytingar. Ég þurfti að vinna minna eða með markvissari hætti, æfa minna eða hið minnsta með skynsamari hætti en áður, hlusta á líkamann oftar og sofa meira!

Og ég get sagt þér að líf mitt hefur breyst svo um munar. Eins og með flest okkar þá vinn ég líklega enn of mikið. Ég stunda líklega líkamsræktina of grimmt og eyði sennilega helst til of mörgum klukkustundum við æfingar. En eitt er víst að svefnmynstur mitt hefur breyst algerlega.

Fimm daga vikunnar fer ég að sofa um kl. 23 og vakna um kl. 07 og er þetta ekki mikil breyting frá því sem áður var. En tvisvar sinnum í viku fer ég í rúmmið á milli kl. 21 og 22 og vakna eftir sem áður í kringum kl. 07. Þessi breyting hefur haft ótrúlega mikil og jákvæð áhrif á mig og gæti ég upplistað hér alla þá jákvæðu þætti sem ég hef upplifað af nægum svefni og allt það sem niðurstöður rannsókna benda til að ávinnist við nægilegan svefn. En ég læt duga að nefna nokkur atriði sem ávinnast með nægum svefni:

  • Aukin vellíðan
  • Aukin einbeiting
  • Lægri meiðslatíðni
  • Minna stress
  • Minna um bólgur í líkamanum
  • Frekari vöðvauppbygging
  • Ofl., ofl. ofl

Og bæti við að með nýjum svefnvenjum hjá mér þá er:

Heilsa mín góð og mér líður frábærlega!

Góður vinur, Kári Steinn Karlsson, tók þátt í maraþonkeppni Ólympíuleikanna í London á síðasta ári og stóð sig frábærlega eins og alþjóð veit. Kári Steinn tók 42. sætið sem verður að teljast stórkostlegur árangur. Í frábærum fyrirlestrum sem Kári Steinn heldur kemur hann inn á svefnvenjur. Hann hefur ákveðna uppskrift að sínum svefnvenjum sem væri ekki úr vegi að allir Íslendingar myndu tileinka sér.

Fyrir hverja klukkustund sem Kári Steinn vakir þá skuldar hann (sjálfum sér) 30 mínútur í svefn.

Ert þú að fá sem mest út úr þínum æfingum með því að fá nægan svefn?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Follow

Get every new post delivered to your Inbox

Join other followers