Mynd úr spinningtíma. Myndin er af vef World Class, www.worldclass.is.

Flottur spinningtími

Ég hef lengi mætt í spinningtíma. Eiginlega alveg frá árinu 2006 hef ég mætt mjög reglulega í slíka tíma. Þessir tímar hafa verið mjög mismunandi að gæðum og áberandi góðir hjá einungis örfáum kennurum sem ég hef mætt til. Svo hafa verið fleiri kennarar sem mér hefur þótt lítið vit hafa á þjálffræði eða lífeðlisfræði þjálfunar, en hvorttveggja er bráðnauðsynlegt, að mínu mati, ætli menn sér að ná til sem flestra sem mæta í tíma. Alltof oft hefur það nefnilega verið þannig að tíminn er vart byrjaður þegar kennarinn byrjar á öskri sínu „Og koma svo allt í botn……“ eða „Og spinna á fullu núna, komaso!“

Slík keyrsla er dæmi um skammtíma hugsun þar sem krafan um örfáa viðbótar svitadropa er svo mikil að mögulegur heildar árangur eða ávinningur spinningtímans er látinn víkja fyrir klikkaðri keyrslu. Og það sem verra er er að nokkrir kennarar vilja að iðkendur hjóli standandi hluta tímans í þessari keyrslu. Slíkt er fyrir marga ávísun á meiðsli í mjóbaki eða hnjáliðum.

Fyrir flesta hentar afar vel að nota púlsmæli til að stjórna álagi við íþróttaiðkun og eru spinningtímar kjörnir til þess að nýta sér þá tækni. Með því að fylgjast með púlsinum má finna út hvort maður sé að fara yfir „eðlileg“ hjartsláttarmörk og yfir í álag sem brýtur niður líkamsform í stað þess að byggja upp. Flest vitum við að meira er ekki endilega betra með hina ýmsu hluti og það sama á við um spinningtíma.

Síðastliðinn sunnudagsmorgunn, eins og marga aðra sunnudagsmorgna, fór ég í spinning í World Class í Laugum. Skemmst er frá því að segja að sá tími fór algerlega fram úr mínum væntingum. Þetta var 90 mínútna tími, stjórnað af múltí-talentnum Ara Eyberg, og kom ég löðrandi sveittur og sæll úr tímanum. En samt fannst mér ég aldrei hafa verið „að drepast“ eða staðið á öndinni í þær 90 mínútur sem tíminn stóð yfir.

Slík upplifun er í mínum huga merki um að tíminn hafi verið rétt uppbyggður þar sem álaginu var stjórnað þannig að hámarks ávinningi var náð. Erfitt er að útskýra með orðum hvað ég á við en línurit yfir hjartslátt getur útskýrt þetta enn betur.

Línurit úr spinningtíma, Steinar B Adalbjornsson, MSc., RD.

Mikilvægt er að spinningtími sé rétt upp byggður.

Mynd 1: Eins og sjá má á þessari mynd er mjög góð uppbygging í tímanum sem leiðir til þess að jöfn og góð aukning er í hámarkshjartslætti út tímann. Hér er byrjað rólega, góður tími settur í upphitun, og álag svo aukið jafnt og þétt. Alveg eins og það á að vera að mínu mati.

Leggjum nú hugmyndinni til hliðar að góður spinningtími sé tími þar sem ávinningurinn er mældur í hversu hratt var hjólað. Mælum frekar ávinninginn í því hvernig spinningtíminn var uppbyggður og hvernig hjartslátturinn var í tímanum. Svo má líka alveg auka mótstöðuna á hjólinu og fara hægar og fá samt sem áður ansi mikinn líkamlegan ávinning :)

Slíkt er vænlegra til árangurs.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Follow

Get every new post delivered to your Inbox

Join other followers