Ert þú að taka L-karnitín? Hættu því þá!

Hvað er karnitín?
Karnitín er efni sem samansett er úr nokkrum amínósýrum en amínósýrur eru byggingarefni próteina. Efnið er framleitt í líkamanum í takmörkuðu magni en auk þess fáum við efnið úr fæðunni og þá helst úr kjöti og fiski. Efnið hefur þann tilgang m.a. að skutla fitusýrum úr geymslu til brennslu.

Hverjir taka og til hvers?
Margir neyta karnitíns í þeim tilgangi að brenna meiri fitu úr fitugeymslum líkamans. Efnið er að finna í allmörgum vörum sem markaðssettar eru sem fitubrennslu- og grenningarvörur. Þar má til dæmis nefna Sportþrennu frá Lýsi og V-brennslu frá Ölgerðinni.

Virkar að neyta viðbótar karnitíns?
Þar sem eitt hlutverka karnitíns í líkamanum er að færa fitusýrur úr geymslu yfir í brennslu þá hafa rannsóknarmenn reynt að finna út hvort viðbótar karnitín stuðli að aukinni brennslu fitu í líkamanum. Karnitín virkar eins og bátur sem ferjar fólk frá einum bakka ár yfir á bakkann hinum megin árinnar. En líkaminn er vel settur með þessa báta og í raun fleiri bátar til taks en þörf er á hjá heilbrigðum einstaklingum. Því þjónar það ekki nokkrum tilgangi að bæta við karnitíni því ekki munu fleiri fitusýrur komast í brennslu þó meira sé af karnitíni.

Er hættulaust að taka karnitín?
Þær fáu rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið sl. 10 ár benda til þess að neysla á viðbótar karnitíni þjóni engum tilgangi en á sama tíma hefur verið sýnt fram á skaðleysi neyslunnar. Þegar magn karnitíns er mælt í tugum gramma þá er mögulegt að óþægindi í meltingarvegi geri vart við sig.

Niðurstaða
Neysla á viðbótarmagni af karnitíni er gagnlaus.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Follow

Get every new post delivered to your Inbox

Join other followers