Merkingar á mörgum matvælum eru hlægilegar

Íslenskir neytendur eru upp til hópa ekki duglegir að lesa á umbúðir matvæla. Af hverju ætli þetta sé? Eru íslenskir neytendur upp til hópa áhugalausir um merkingar? Getur verið að  við séum bara svona vitlaus að við skiljum ekki mikilvægar merkingar á matvælunum? Nei ég tel svo ekki vera heldur er það mitt mat að læsi Íslendinga á merkingum matvæla er lélegt vegna þess að reglur um merkingar matvæla, en þær eiga uppruna sinn hjá Evrópusambandinu (ESB), séu fáránlegar og geri lítið til þess að aðstoða neytandann til að velja betri matvæli fyrir sig og fjölskyldu sína.

Dæmin eru mörg um hvernig merkingar hreinlega vinna gegn neytandanum. Tökum eitt dæmi:

Markaðssettar eru tvær vörur, vara A og vara B. Vara A er í eðli sínu holl vara og góður kostur þegar kemur að fjölbreyttu og hollu mataræði. Vara B er í eðli sínu óhollustuvara, stútfull af viðbættum sykri og mikið unnu korni. Þar sem framleiðandi vöru A vill koma því á framfæri að vara sín sé hollustuvara þá tekur hann fram á umbúðum að hún sé „Trefjarík“. Við það eitt að merkja hana þannig þá koma kvaðir á hann um að bæta þurfi á umbúðir vörunnar upplýsingum um næringarinnihald (orka, prótein, kolvetni, fita ofl. sjá reglugerð hér sérstaklega 4. grein) og við neytendur njótum góðs af því og getum verið enn upplýstari um að vara A sé  góð fyrir okkur. Framleiðandi vöru B hefur engan áhuga á því að segja frá næringargildi vörunnar og þarf hann því ekki að merkja vöruna neitt sérstaklega eða umfram það sem skylt er að merkja allar vörur með (t.d. innihaldslýsingu).Því koma engar upplýsingar fram á vörunni t.d. um orku, viðbættan sykur eða trefjamagn og upplýsingum haldið frá okkur um vöruna sem fyrir suma gæti verið bráðnauðsynlegt að hafa.

Þetta getur ekki verið rétt gagnvart neytendum!?!

Við viljum mjög mörg einfaldlega vita hversu mikið er af vissum efnum í  vörunum sem við kaupum, við viljum vita hversu mikið er af sykri og hitaeiningum, hversu mikið er af ómega-3 og ómega-6 fitusýrum og við viljum líka mörg vita trefjainnihald og saltmagn. Þessar upplýsingar fáum við ekki úr innihaldslýsingu. Ég meina, hvernig eigum við að gera farið eftir ráðleggingum um lýðheilsu ef við vitum ekki hvað er í vörunum sem eru á boðstólnum?

Við erum ekki fædd með þessa þekkingu!

Danir fóru á sínum tíma gegn reglum ESB (sjá hér) og fengu lágkúru fyrir en þeir voru ósáttir við magn transfitu í matvælum enda transfita talin stór sökudólgur í tíðni hjarta- og æðasjúkdóma. Sambandið fór í mál en Danir stóðu fastir á sínu og fengu í gegn að reglur um transfitusýrur yrðu hertar í Danmörku því ESB lét að lokum málið niður falla. Með þessu sýndu Danir þrautseigju og hugrekki sem aðrar þjóðir hafa nýtt sér í kjölfarið, þ.m.t. við Íslendingar en reglur um hámarksmagn transfitu í matvælum voru settar í lög árið 2010 (sjá hér).

Með því að láta málið gegn Dönum niður falla var ESB í raun að segja að sambandið meti lýðheilsu umfram frjálst flæði matvæla og þetta eiga íslensk stjórnvöld að nýta sér. Lýðheilsumál Íslendinga gætu verið mun betri en hér á landi er offita mikil og gríðarleg neysla á sykri. Við neytendur eigum skilið að fá reglur strax sem gera okkur kleift að hafa þær upplýsingar á umbúðum matvæla sem við þurfum til að geta tekið upplýsta ákvörðun um það hvort matvara henti okkur eða ekki. Það gengur nefnilega ekki upp að láta fyrirtæki upplýsa okkur í gegnum markaðsherferðir um ágæti vara sinna enda eru mýmörg dæmin undanfarið þar sem hreinlega er logið að okkur neytendum í þessháttar herferðum.

Nýjar reglur eru í burðarliðnum hjá ESB (sjá hér) en þær munu taka gildi 13. desember á næsta ári sem þýðir að þær verða teknar upp hér á landi eitthvað síðar vegna innleiðingar inn í samninginn um evrópska efnahagssvæðið (EES).

Þær upplýsingar sem eru hvað mikilvægastar að mínu mati fyrir íslenska neytendur, upplýsingar um næringargildi, munu þó ekki verða skylda að merkja fyrr en 13. desember 2016 og þá eitthvað seinna hér vegna EES.
Næstu fjögur árin hið minnsta munum við því ekki hafa upplýsingar á öllum vörum um næringarinnihald matvæla. Einmitt þær upplýsingar sem við þurfum flest á að halda núna en ekki eftir tæplega fjögur ár.

Comments (3)

 1. Jóhanna Harðardóttir

  þörf umræða og mikið þyrfti að taka alvarlega á þessum málum.

 2. Það ætti að vera forgangsmál að koma þessum hlutum í lag hjá okkur. Því þarf jafnframt að fylgja aukin fræðsla um hvað er hollt og hvað ekki og hvattningu um ástundun heilbriðgs lífsstíls. Það er mikilvægt fyrir heilsu þjóðarinnar og það er af því mikill fjárhagslegur ávinningur fyrir heilbrigðiskerfið. Það er hin eina raunsanna lækkun á kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Það eru margir sem að gera sér einfaldlega ekki grein fyrir hvað er holt og hvað ekki, borða tóm einföld kolvetni allan daginn og lítið sem ekkert prótein.

  Eins mundi ég vilja almennt átak í að hvetja fólk til að drekka hreint íslenskt kranavatn. Það er mjög einkennilegt hvað okkur er það lítið tamt.

  Við eigum yndislegt vatn á Íslandi. Um alla Evrópu er skortur á hreinu vatni, meira að segja í ölpunum. Kranavatnið okkar er hreinna en vatn sem að selt er á flöskum í Evrópu. Frökkum til dæmis er mjög tamt að drekka vatn. þeir þurfa samt að kaupa það á flöskum enda er mjög lítið um hrein vatn í Frakklandi. Þar drekka flestir vatn með mat þegar þeir ekki drekka vín. Síðan þurfa þeir stundum að bæta rauðvíni út í vatnið til að drepa bakteríurnar. Ég hef oft heyrt Íslendinga segja að þeim fynnist ekki gott að drekka vatn af því að það sé ekkert bragð af því, ég man eftir því sem barn að maður fékk yfirleitt ekki vatn, það var alltaf settur djús saman við það eða manni var boðið mjólk að drekka með mat. Venjum börnin okkar á að drekka okkar dásamlega vatn.

  Fólk er að taka inn ótæpilegt magn af óhollustu og hitaeiningum í formi allskonar drykkja, með eða án kolsýrings, stútfullum af sykri og allskonar óhollustu án þess að gera sér grein fyrir því. Jafnvel drykkir sem að virðast vera mjög saklausir og frekar óhollir en eru við nánari skoðun fullir af sykri eða óholri gervisætu. Það væri mikilvægur liður í að bæta heilsu þjóðarinnar.að gera almenning meðvitaðan um þetta og hvetja til vatnsdrykkju.

 3. Vel mælt Anna Margrét!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Follow

Get every new post delivered to your Inbox

Join other followers