Niðurstaðan er kominn í lágkolvetnakúrinn

Niðurstaðan með lágkolvetna kúrinn!?

Það hefur ekki farið framhjá neinum að mikið matar-æði hefur geisað hér á landi um tíma. Flestir kalla það „lágkolvetna mataræðið“ og gengur það út á að sneiða framhjá kolvetnum eins mikið og mögulegt er og setja bara ákveðin kolvetni ofan í sig, kolvetni sem íslenskur höfundur bókar um þennan kúr, Gunnar Már Sigfússon, einkaþjálfari, telur að séu ásættanleg hvað blóðsykursáhrif varðar.

Fyrir ekki svo löngu síðan gagnrýndi ég nálgun höfundar þessara bókar sem og aðra sem hafa í gegnum tíðina boðið upp á „patent“ lausnir þegar kemur að mataræði og að því að ná góðri heilsu og tökum á þyngdinni. Þá gagnrýni má m.a. sjá hér og upprunalegu skrifin mín má finna á þessari síðu. Mikilvægt er að það komi fram að ég tel að lágkolvetnakúrar geti átt rétt á sér fyrir ákveðna hópa en tel afar varhugavert að „allir séu settir undir sama hatt“ hvað þennan kúr varðar. Reyndar er það svo að norrænar ráðleggingar um mataræði eru væntanlega á þessu ári eða því næsta og líklegt verður að telja að hlutur einfaldra kolvetna og sykurs, muni minnka í þeim ráðleggingum. Það má því ljóst vera að ég er ekki að gagnrýna mataræði með lágu hlutfalli sykurs enda eru slíkar ráðleggingar búnar að vera lengi til staðar. Mataræði með mjög lágu heildarhlutfalli kolvetna, sem ætlast er til að allir fylgi, er klárlega ekki málið, og bann gagnvart neyslu á ávöxtum, er heldur ekki rétt leið og í raun bara kjánaleg. Aukinheldur er öfgafull nálgun, með boðum og bönnum, síður en svo rétta leiðin. Það er því miður það sem, að mínu mati, er í gangi með lágkolvetnakúrinn hér á landi.

Hvað hefur gerst síðan ég kom fram með gagnrýni mína? Tja einu reikna ég með, en það er að höfundur bókarinnar hefur þénað vel á skrifunum, enda bókin söluhæst allra bóka á þessu ári. En stöldrum nú aðeins við. Hvað annað hefur gerst? Ég veit um nokkra sem prófuðu lágkolvetnakúrinn í nokkrar vikur og allir þeir eru búnir að gefast upp. Flestir gefa ástæðuna „ég gat þetta ekki án kolvetna“ eða „náði bara alls ekki að halda einbeitingu án kolvetnana“ eða svipaðar ástæður þar sem fólk gat hreinlega ekki uppfyllt öll þau skilyrði sem þurfti né farið eftir þeim boðum og bönnum sem lágkolvetnakúrinn ætlaðist til af þeim.

Þá myndu margir spyrja hvort það sé eitthvað slæmt við það? Er það ekki bara fínt að einhverjir hafi prófað þetta og ef það gekk upp, þá var það í lagi, og ef ekki, þá væri það í lagi líka? Jú líklega en þetta er eilítið flóknara en það.

Frá því að settar voru upp síður, bæði á Facebook og annars staðar, um þennan lágkolvetna kúr, þá hafa mér borist athugasemdir, leiðbeiningar og skjámyndir af því sem þar hefur farið fram. Semsagt, fólk hefur verið að senda mér upplýsingar um hvað fer fram á þessum vettvangi, vettvangi sem Gunnar Már Sigfússon, er ábyrgðarmaður fyrir, enda Gunnar Már með þessar síður sem hluta af útbreiðslu lágkolvetnakúrsins.

Ég hef talsvert dálæti á Michael Pollan, höfundi metsölubóka um hollt mataræði og öfgalausa nálgun á mataræði og næringu. Michael er ekki næringarfræðingur en hans nálgun ættu allir næringarfræðingar og aðrir sem ráðleggja fólki með mat og næringu, hið minnsta að kannast við, enda margt mjög gott sem frá honum hefur komið.

Í einni bóka sinna, Mataræði, handbók um hollustu, sem kom út hér á landi árið 2010 (Salka) í þýðingu Nönnu Gunnarsdóttir, lýkur hann bókinni m.a. á þessum orðum:

„Þráhyggja gagnvart mataræði er óholl fyrir andlega líðan og væntanlega fyrir heilsuna líka.“

Hvað meinar hann með þessu? Jú, ef ég ætti að setja mína persónulegu túlkun á hans orð, þá meinar hann að endalaus barátta við hvað er rétt og rangt hvað mataræði varðar gerir okkur ekkert annað en slæmt. Boð og bönn, hvað matinn varðar, þetta má og þetta má ekki, eru ekki til þess fallin að hjálpa okkur í því að öðlast góða heilsu. Þvert á móti gerir þráhyggja gagnvart mat ekkert annað en að byggja upp togstreitu gagnvart matnum, mataræði og næringu og líklegt verður að teljast að vítahringur skapist í kjölfarið.

Því langar mig til að spyrja þig, lesandi góður, hvað þér finnst að sé að gerast með lágkolvetna kúrinn á vefsíðum þar sem upplýsingar um kúrinn eru markaðssettar. Kíktu á þessar myndir af samskiptum á ofangreindum síðum og myndaðu þér skoðun á því hvort þessi „patentlausn“ sé að virka? Sumt þarna er náttúrulega bara kómískt en annað er grafalvarlegt og þarfnast skoðunar, að mínu mati, af Embætti landlæknis.

Síðurnar um Lágkolvetna kúrinn eru öllum opnar. Allar færslur sem ég hef sett hér inn eru öllum opnar. Ég hef aftur á móti ákveðið að hylja nöfn og andlit þeirra sem hafa sett inn færslur nema þeirra aðila sem tengjast síðunum sjálfum. Hér eru örfá dæmi frá umræðunni sem þar fer fram.

Þarna á sér stað misvitur umræða og ég sé ekki betur en þráhyggjan, boðin, bönnin, öfgarnar, þvagmælingar, mælingar á kolvetnum upp á 0,1 gr., mælingar á líkamsþyngdarbreytingum í grömmum talið og allt það, sem er svo mjög óæskilegt þegar kemur að nálgun okkar á mataræði, sé allt til staðar. Þegar kemur að því að fá upplýsingar um mikilvæg málefni, eins og til dæmis ofnæmi og óþol, eða aðra sjúkdóma og hvernig slíkir hlutir tengjast lágkolvetna kúrnum, þá svarar ábyrgðamaður vefsvæðanna ekki fyrirspurnum þeirra sem áhuga og áhyggjur hafa heldur leyfir notendum að skiptast á skoðunum t.d. á Facebook um þessi mikilvægu mál. Ábyrgðarleysi forráðamanna vefsíðunnar er algert að mínu mati.

En það gengur þó vel með söluna á bókinni!

Treystum við manni sem veit ekki muninn á viðbættum sykri og viðbættum náttúrulegum sykri í því umhverfi sem hann kemur upprunalega, til að veita Íslendingum lýðheilsuráðleggingar, þá sérstaklega varðandi mataræði? Nú fyrir stuttu var á netinu mynd úr fyrirlestri Gunnars Más þar sem búið var að setja sykurmola fyrir framan nokkrar mismundandi vörur. Þarna er gefið í skyn að vörur, sem eru með náttúrulegan sykur, t.d. úr eplum, séu undir sama hatti og verksmiðjuunninn, viðbættur hvítur sykur. Ef þetta væri einn og sami hluturinn, af hverju setti Gunnar Már ekki banana, appelsínu, vínber eða aðra ávexti þarna inn á myndina líka? Vitleysan í framsetningu var alger og í kjölfarið hætta þeir sem þessa mynd sáu að kaupa góðar vörur, sem í fínu lagi er að neyta, sem hluta af hollu og góðu mataræði.

Af_www.visir.is_1

Af www.visir.is

 

Vitleysan í kringum þessa mynd var svo mikil að helstu bandamenn lágkolvetnakúrsins töldu nauðsynlegt að leiðrétta Gunnar Má. Til dæmis þá þurftu forsvarsmenn Yggdrasills að útskýra að Gunnar Már væri nú ekki alveg að skilja sykurmálin rétt.

Af_www.visir.is_2

Af www.visir.is

 

Spurningin  í mínum huga er þessi. Viljum við að maður, sem sagði árið 2005 að Hollywood kúrinn væri málið (sú vara var fjarlægð af markaði vegna hættulega mikils magns af A-vítamíni), árið 2010 að allt væri í lagi að borða svo framarlega að hitaeiningarnar væru ekki fleiri en 1500 (www.shape.is sem hann seldi stuttu áður en hann fór að markaðssetja lágkolvetna kúrinn), sem þekkir ekki muninn á viðbættum, unnum sykri og viðbættum náttúrulegum sykri og svarar ekki spurningum og áhyggjum þeirra sem aðhyllast hans lágkolvetnaleið, sé að ráðleggja fólki um mataræðið? Viljum við að Gunnar Már sé að segja okkur til með starfssemi líkamans, hvernig hormónin virka og hvað sykursýki er (sjá mynd)?

LKL_Namskeid_Netto

Og fyrir allt þetta sem hann vill að við gerum þá fær hann greitt! Er það málið? Er trúverðugt að hann beri hag okkar neytenda fyrir brjósti?

Eins og lesa má hér að ofan eru ráðleggingar frá Gunnari Má breytilegar á milli ára og alltaf eru ráðleggingarnar samhangandi með einhverjum fjárhagslegum ávinningi. Ef við tökum sem dæmi þessa þrjár „leiðir“ hér að ofan sem Gunnar Már hefur boðið okkur upp á sl. 10-12 þá eru allar tengdar einhvers konar sölu og markaðssetningu hjá honum. Hvað finnst fólki um það?

Hvar liggur ábyrgðs Gunnars Más varðandi það sem fram fer á síðum sem hann er ábyrgðarmaður á? Hvað gerir þessi öfgaumræða gagnvart heilbrigðri hugsun um mat og varðandi upphaf lystarstols, lotugræðgi og annarra átraskana? Ég hef verulegar áhyggjur af þessum þáttum enda byggja nálganir Gunnars Más á allt öðru, að mínu mati, en virðingu fyrir öllum mat sem næringu og eldsneyti fyrir líkama okkar!

Ég hef aldrei skrifað grein, þar sem ég gagnrýni, með þessum hætti, hegðun einnar manneskju, en mér er nóg boðið!

Ég biðla því til Gunnars Más Sigfússonar að hætta að veita Íslendingum lýðheilsuráðleggingar! Það er komið nóg af vitleysu í kringum þessi mál og alltof oft sem þurft hefur að leiðrétta rangfærslur og ranghugmyndir um mat og næringu sem komið hafa úr smiðjum þínum undanfarinn áratug!

Ráðleggingar hans, eru að mínu mati, í versta falli hættulegar og í besta falli verulega villandi fyrir íslenska neytendur!

Tilgangurinn með þessum skrifum var að taka stöðuna, núna að liðnum þremur mánuðum, þar sem alltof margir Íslendingar hafa verið „á lákolvetna kúrnum“. Meira hef ég svosem ekki um þetta lágkolvetnamál að segja enda niðurstaða komin að mínu mati!

Comments (24)

 1. Salvar Þór Sigurðarson

  Ég skal bjóða mig fram sem jákvætt dæmi: Síðustu þrjá mánuði hef ég innbyrt nær engan sykur og mjög lítið af kolvetnum. Hefur aldrei liðið betur, orka í hámarki og í kaupbæti hafa fimmtán kíló flogið.

  Myndirðu ráðleggja mér að hætta þessum ranghugmyndum mínum um eigin líðan?

  • Steinar B. Steinar B.

   Flott hjá þér og til hamingju!

   Kannski væri ekki úr vegi að þú myndir lesa greinarnar mínar aftur? Hvenær hef ég sagst vera á móti þessum kúr?

   Sjáðu langt svar frá mér hér að neðan ef þú vilt ekki lesa aftur greinina mína sem þú gagnrýnir hér að ofan.

 2. Hugsandi maður

  Ágætis hugmynd á bakvið skrifin en varla ætlastu til þess að fólk taki þig alvarlega þegar þú skrifar grein gjörsamlega án allra heimilda eða rökstuðnings. Tökum dæmi úr grein:

  “Mataræði með mjög lágu heildarhlutfalli kolvetna, sem ætlast er til að allir fylgi, er klárlega ekki málið, og bann gagnvart neyslu á ávöxtum, er heldur ekki rétt leið og í raun bara kjánaleg”

  Vel má vera að þetta sé satt en hvar eru gögnin? Hvar eru rannsóknirnar?

  Mig langar að trúa en það að menn rugli saman ávaxtasykri og hvítum sykri eða að einstaklingur x fékk bólur af matarræði y er ekki það sem málið snýst um, er það?

 3. Elfa Jóns

  Gleymdiru ekki þessum link í pirringnum :)
  Eða er Dr. Axel líka að græða peninga á að ljúga að fólki? Og lýgur líka til um rannsóknirnar sem hann segir frá?

  http://www.ruv.is/mannlif/lagkolvetnamatarraedid-gott-eda-hvad?fb_action_ids=10151617561704516&fb_action_types=og.likes&fb_source=aggregation&fb_aggregation_id=288381481237582

  Þegar fólk ræðir saman reynslu sína í grúbbu eins og LKL-grúbbunni, þá er enginn að halda því fram að allt sé rétt, satt og vísindalegt. Þarna er dæmigerð bland-umræða þar sem misgóð ráð koma upp. Það hlýtur að vera öllum ljóst. Þó Gunnar stofni grúbbuna, þá hefur hann aldrei haldið því fram að hann ritstýri efni þar eða beri ábyrgð á því.

  Settu endilega ofaní við Gunnar fyrir hans orð og ráðleggingar, ef þér finnst þar heimskulega talað. Um að gera.

  En það er ekki sæmandi að vera að hnýta í skeggræður fólks á kúrnum og finna að því að venjulegt fólk sé ekki með öll fræði á hreinu.

  • Steinar B. Steinar B.

   Vitna m.a. í atriði nr. 3. hér í svari að neðan. Skil ekki hvernig þú getur borið Axel fyrir þig.

   3. Þetta mataræði hentar ÖLLUM skv. höfundi. Þú hefur alloft vitnað í Axel F. Sigurðsson lækni þegar kemur að LCHF mataræðinu og máli þínu til stuðning. Samt hef ég aldrei séð hann sérstaklega mæla með því fyrir almenning. Hann hefur aftur á móti fengið fólk til sín sem hann vegur og metur hvort það gangi upp að þau fari á slíkt mataræði. Semsagt hann hittir skjólstæðinga sína, kynnist þeim og ráðleggur þeim svo hugsanlega með þetta mataræði. (sjá t.d. hér: http://www.laeknabladid.is/tolublod/2013/0708/nr/4916). Aldrei myndi Axel, að mínu viti amk., ráðleggja öllum að fara á þetta mataræði og þá allra síst myndi hann, að mínu mati, veita slíkar ráðleggingar í gegnum netið og hvað þá án þess að þekkja til einstaklingana sem um ræðir. Að mínu mati er Axel að gera góða hluti með sinni nálgun enda í flestum tilfellum að varpa ljósi á kosti og galla þessa mataræðis án þess að taka einstrengilega afstöðu.

 4. Guðbjörg Ósk Hjartardóttir

  Takk fyrir skjót viðbrögð.

  • Steinar B. Steinar B.

   Ekkert mál. Afsakaðu þetta. Ég var búinn að margfara yfir þetta og mér yfirsáust tvær myndir.

 5. Andri

  Fer ekki að hætta rigna upp í nefið á þér Steinar. Ég finn skítalyktina hingað þú ert svo uppfullur af honum.

 6. [...] hefur verið umdeild og næringarfræðingurinn Steinar B. Aðalbjörnsson skrifaði nýlega pistil þar sem hann gagnrýndi Gunnar, þýðanda lágkolvetna bókarinnar. Nú hefur Elísabet stigið [...]

 7. Ég skil bara ekki af hverju næringarfræðingar eins og þú geta ekki bara tekið því fagnandi þegar svo stór hluti þjóðarinnar fer á mataræði sem er vísindalega sannað til að virka vel gegn alvarlegum heilsufarsvandamálum eins og offitu og sykursýki II?

  Í stað þess að ráðast á persónu Gunnars Más, hvernig væri að tækla allar þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á þessu mataræði og sýna fram á að það sé MIKLU betur til þess fallið að bæta heilsu fólks en það mataræði sem lýðheilsuyfirvöld hafa verið að mæla með undanfarna áratugi?

  Hér bendi ég á þrjár meta-analysur af klínískum íhlutunarrannsóknum. Slíkar rannsóknir eru gull-standardinn í að sýna fram á orsök og afleiðingu í mönnum.

  1:
  2:
  3:

  Það að þessi mataræði skili góðum árangri fyrir þá sem eru með a) offitu, b) sykursýki eða c) efnaskiptavillu (e. metabolic syndrome) er svo gott sem vísindalega sannað. En auðvitað er mismunandi hvað hentar fólki og það er enginn að segja að þetta mataræði sé svarið fyrir alla, en þetta hentar þó mjög mörgum.

  Mér finnst þú vera með alveg ágætlega opinn huga miðað við marga næringarfræðinga og yfirleitt er ég sammála þér, en öll þín skrif um lágkolvetnamataræði eru ómálefnaleg og þú vitnar aldrei í neinar heimildir til að styðja við þitt mál.

  Einnig er kjánalegt að kenna Gunnari Má um það sem fer fram á Facebook grúppu sem hann stofnaði. Þarna eru alls konar einstaklingar að skiptast á skoðunum og oft eru ráðin misgáfuleg, en slík hegðun á sér stað alls staðar á internetinu og kemur lágkolvetnamataræðum ekkert við.

  • Steinar B. Steinar B.

   Sæll Kristján
   Afsakaðu hvað ég svara þér seint. Ég hef alveg látið fjölmiðlamálin afskiptalaus mesta hluta þessa sumars – það er jú gott að taka frí líka.

   Varðandi aths. þínar þá verð ég aftur að endurtaka það sem ég hef sagt áður opinberlega og við þig sérstaklega í okkar skrifum. Það hefur ekkert með það að gera að vera með eða á móti LCHF mataræði enda hefur það ávallt komið skýrt fram að ég er ekki á móti því. Það er margt sem bendir eindregið í þá átt að þetta mataræði geti aðstoðað ákveðna hópa – ég hef aldrei haldið öðru fram, alveg frá því að ég byrjaði fyrst að fjalla um LCHF mataræði.

   Það hefur líka alltaf komið skýrt fram að gagnrýni mín er fyrst og fremst á öfgakennda framsetningu höfundar bókarinnar á mataræðið sem hann vill að við förum öll á. Það eru í grunninn þrjú atriði sem ég hef verið að hreyfa mótbárum við:

   1. Mataræðið er sett fram með þeim hætti að það sé lausn og svar við handónýtum mataræðisráðleggingum á Íslandi. Slíkt er auðvitað kjánaskapur enda ráðleggingar sem fæðuhringurinn byggir á byggðar upp á vísindalegum grunni þar sem hófsemi ræður ríkjum. Meira en fjórðungur af heildarmataræði ætti að koma frá ávöxtum og grænmeti skv. hringnum, tæpur fjórðungur úr sterkjuríkum kolvetnagjöfum, um fjórðungur úr heppilegum fitum og um fjórðungur frá próteinríkum afurðum. Upplýsingarnar sem hafa verið notaðar til að hanna fæðuhringsmódelið koma úr mörgum áttum; mörgum mjög sterkum vísindalegum áttum með mikil og sterk rök. Til dæmis eru upplýsingar um hvers vegna trefjar eru góðar fyrir okkur hér (Ford, A. British Medical Journal, November 13, 2008; vol 337: p a2313.) en þær eru í korni, grænmeti og ávöxtum (sá hluti fæðuhringsins), af hverju ávextir og grænmeti eru af hinu góða (Hung HC, Joshipura KJ, Jiang R, et al. Fruit and vegetable intake and risk of major chronic disease. J Natl Cancer Inst. 2004; 96:1577–84.) og af hverju við ættum að fá nóg af fiski, m.a. vegna heilsusamlegra áhrifa omega-3 fitusýra sem eru í feitum fiski sérstaklega (Stoll BA. Essential fatty acids, insulin resistance, and breast cancer risk. Nutr Cancer. 1998;31(1):72-77. 1998 / Erkkila A, Lichtenstein A, Mozaffarian D, Herrington D. Fish intake is associated with a reduced progression of coronary artery atherosclerosis in postmenopausal women with coronary artery disease. Am J Clin Nutr , Sept. 2004; (80(3):626-32. 2004. PMID:15321802). Hér nefni ég bara örfáar niðurstöður rannsókna.

   Almennt byggja manneldismarkmið/fæðuhringurinn semsagt á upplýsingum um neyslu Íslendinga á hverjum tíma, niðurstöðum rannsókna um „spesifísk“ næringarefni og upplýsingum frá niðurstöðum rannsókna um ákveðnar „tegundir“ af heildarmataræði. Mörg þúsundir rannsókna hafa verið framkvæmdar og nota yfirvöld niðurstöður þessara rannsókna til að gefa út ráðleggingar. Auk þess eru óháðir fræðimenn í stofnunum, til dæmis hjá Norrænu ráðherranefndinni sem kemur von bráðar með nýjar heildar ráðleggingar).

   En efnið er sótt víða, til fræðimanna við stofnanir og háskóla víða um heim. Evrópusambandið hefur líka ýmislegt um málin að segja (því miður segi ég) þó svo að áhrifin séu e.t.v. ekki bein hingað til lands hvað það varðar (EFSA. Scientific Opinion on principles for deriving and applying Dietary Reference Values. EFSA Journal 2010;8(3):1458), Chung M et al. Systematic review to support the development of nutrient reference intake values: challenges and solutions. AJCN 2010; 92:273,6 og Aggett PJ. Population reference intakes ad micronutrient bioavailability: a European perspective. Am J Clin Nutr 2010; 91 (suppl): 1433S-1437) bara til að nefna örfá dæmi.

   Þú auðvitað veist það sjálfur Kristján að vandamálið liggur ekki í íslenska fæðuhringnum. Vandamálið liggur í ákvarðanatöku einstaklinga þegar kemur að vali á næringu fyrir líkamann og skammtastærðum. Eins spila markaðsöflin alltof stóra rullu (t.d. Holywood kúrinn árið 2004, Shape árið 2010 og að mínu mati LKL árið 2013 og svo náttúrulega fyrirtæki sem eyða milljónum króna í markaðssetningar ár hvert).

   2. Sleppa skal ávöxtum skv. höfundi þegar maður er á þessu mataræði. Slíkt er auðvitað fásinna og enn ein leiðin til að heilla fólk upp úr skónum með „patent“ lausnum þar sem hlutirnir eru gerðir svartir eða hvítir. Ég hygg að það þurfi nú ekki að útskýra fyrir þér hversu mikið liggur að baki þegar sagt er að ávextir séu góðir fyrir heilsu almennings? Auðvitað er allt gott í hófi en ég trúi því nú ekki að þú myndir nokkru sinni taka þann pól í hæðina að mæla með því að fólk sleppti ávöxtum umhugsunarlaust? Af hverju að gera þetta svona? Af hverju fer höfundurinn svona fram? Tja öfgar selja og það er það sem hann er að gera!

   3. Þetta mataræði hentar ÖLLUM skv. höfundi. Þú hefur alloft vitnað í Axel F. Sigurðsson lækni þegar kemur að LCHF mataræðinu og máli þínu til stuðning. Samt hef ég aldrei séð hann sérstaklega mæla með því fyrir almenning. Hann hefur aftur á móti fengið fólk til sín sem hann vegur og metur hvort það gangi upp að þau fari á slíkt mataræði. Semsagt hann hittir skjólstæðinga sína, kynnist þeim og ráðleggur þeim svo hugsanlega með þetta mataræði. (sjá t.d. hér: http://www.laeknabladid.is/tolublod/2013/0708/nr/4916). Aldrei myndi Axel, að mínu viti amk., ráðleggja öllum að fara á þetta mataræði og þá allra síst myndi hann, að mínu mati, veita slíkar ráðleggingar í gegnum netið og hvað þá án þess að þekkja til einstaklingana sem um ræðir. Að mínu mati er Axel að gera góða hluti með sinni nálgun enda í flestum tilfellum að varpa ljósi á kosti og galla þessa mataræðis án þess að taka einstrengilega afstöðu.

   Því er það mitt mat að ábyrgðarleysi Gunnar Máss sé algert enda er þetta gert með þeim hætti að hagur neytandans vegur ávallt minna en viðskiptin sem hann stundar; magnið verður alltaf meira en gæðin þegar farið er fram með þessum hætti!

   Og að sjálfsögðu ber hann ábyrgð á sinni síðu, þar sem settar eru fram spurningar til hans sem hann svarar ekki, og geta haft bein alvarleg áhrif fyrir þá sem taka við þeim ráðleggingum sem frá honum koma. Þú hlýtur að sjá að síðan sem slík, í þann farveg sem hún er komin, gerir ekki annað en að ýta undir óheilbrigða hugsun þegar kemur að mataræði. Þetta má, þetta má ekki, þyngd mæld í grömmum, borða takmarkalaust af rjóma og smjöri ofl ofl. getur ekki annað en verið uppáskrift á veruleg vandræði. Þetta hefur markaðssetning bókarinnar ýtt undir.
   Það er gott að heyra að þú sért nokkuð sáttur við mín störf. Ég hef líka alltaf sagt, frá fyrsta pistlinum sem ég skrifaði um þín viðhorf, að þú hefur margt til borðs að bera og það er ávinningur fyrir læknastéttina ef þú heldur áfram í náminu (eitthvað heyrði ég af því að þú værir hættur í náminu). Alltof fáir læknar hafa lagt sig fram um að skilja næringarfræðina til að geta fært upplýsingar til mismunandi skjólstæðinga. Mín skoðun er sú að við værum ekki í eins slæmum málum í dag ef læknar hefðu í gegnum tíðina haft meiri áhuga á næringarfræði eða gefið sér tíma til að sinna henni. Það er búið að vera holrúm hvað mataræðispælingar varðar sem mjög misvitrir hafa fyllt upp í, og flestir þeirra hafa haft sterkari viðskiptalega hagsmuni heldur en þá hagsmuni að raunverulega hjálpa einstaklingum til betri vegar.

   En á sama tíma og ég hrósa þér fyrir þín skrif og áhugann á næringarfræðinni þá skora ég á þig að láta af öfgafullum upphrópunum um matvæli sem „drepa“ og upphrópunum um að næringarfræðingar um heim allan séu með hagsmunagæslu fyrir iðnaðinn og vilji ekki skipta um skoðun. Ég held að dæmin sanni, t.d. hér á landi, að íslenskir næringarfræðingar haldi íslenskum iðnaði nokkuð vel við efnið, t.d. hvað varðar samfélagslega ábyrgð.

   En öfgakenndur málflutningur eykur vinsældir og flestir neytendur sem eiga við vandamál að stríða sem vilja finna sökudólg fyrir bágu ástandi sínu

   Og hentugt er að sá sökudólgur sé annar en manneskjan sjálf!

   Annars vitna ég líka í viðtalið sem var tekið við okkur á Bylgjunni í sumar þar sem mitt viðhorf kom ágætlega fram (http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP19428).
   B. kv.,
   SBA

 8. Guðrún Rúnarsdóttir

  Sæll- það vill svo til að ég sat fyrirlesturinn hjá Gunnari Má, þar sem hin umrædda “sykurmola-mynd” var tekin. Þar tók Gunnar skýrt fram að molarnir táknuðu þyngd (magn) sykurs í hverri vöru, en hann tók jafnframt fram að það væri mismunandi sykur – eða sætuefni í vörunum og setti þau svo sannarlega EKKI öll undir sama hatt. Hann hefði allt eins getað notað legókubba til að tákna magnið, en sykurmolarnir voru svo sannarlega áhrifamikil túlkun.
  Þessi fyrirlestur var fyrst og með þeirri nálgun að þátttakendur settu sér það markmið að léttast, og að forðast kolvetni virkar mjög vel fyrir mjög marga.
  Ég gef mér að þú hafir notað sykurmolamyndina án þess að fá þá skýringu sem henni svo sannarlega fylgdi, svo ég gat ekki hjá látið að senda þér skýringuna líka.

  • Steinar B. Steinar B.

   En einhverra hluta vegna eru fjöldi fólks að misskilja þessa mynd eins og hún var sett fram á fyrirlestrunum. Það er einmitt áhyggjuefnið.

 9. Steini

  Finnst þér einfaldlega gott að skíta í buxurnar,,,bwahahahaha þvílíkur vitleysingur

 10. Rannveig

  Takk fyrir þetta, finnst þetta vera mjög vel upp sett og vera fullkomlega réttlát gagnrýni, enda ósköp mikið sem bara common sense, og oft vandræðalegt að fylgjast með því þegar fólk kokgleypir við öllum nýjum sölutrixum án gagnrýninnar hugsunar.

 11. Árný Ingveldur Brynjarsdóttir

  Ánægð með þessa grein og þessa eðlilegu gagnrýni á bæði höfund bókar og á þann kúr sem hann boðar og stórgræðir á.

 12. Elísabet Ólafsdóttir

  Ég finn til í hjartanu þegar þetta fólk í kommentunum er með skítkast og talar um “Gunna” eins og hann sé guðinn þeirra. Múgsefjun og vitfirring. Nú er ég búin að vera sykur og sterkjulaus í 4 ár og það gjörsamlega breytti mínu lífi… en ég er matarfíkill og þurfti að taka til í hausnum til að breyta minni hegðun. Rétt samsetning kjöts, fisks, fitu og grænmetis er minni gullni vegur og nýt ég þess að hafa fundið þá leið og mér finnst hver einasti kúr á jarðríki vera gjörsamlega kreikrei ;) Enginn megrunarkúr virkar því kúrar hætta á einhverjum tímapunkti. Það er bara beisikk.

  Rétt upp hönd sem ætlar að fara eftir þessum kúr að eilífu?

  Fólk verður að gera sér grein fyrir að þú ert að agitera fyrir góðu matarræði en ert að gagnrýna sölumennskuna og bullið og hver er hann að segja okkur hvað matarfíkn eða sykursýki er. Hnuss. Djöfull var þetta góð grein…ég er alveg fired up hérna. Til hamingju!

Leave a Reply to Guðbjörg Ósk Hjartardóttir Cancel reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Follow

Get every new post delivered to your Inbox

Join other followers